Ummæli sem Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður lét falla í viðtali við RÚV eftir Gleðigönguna í gær hafa vakið miklar umræður á netinu og sitt sýnist hverjum.
Páll Óskar tók þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga í gær og skemmti gestum við Arnarhól við mikinn fögnuð áheyrenda. Hann ræddi við RÚV um gleðigönguna og sagði að hún snerist ekki lengur bara um réttindamál samkynhneigðra.
„Mér finnst gay-pride-hátíðin vera löngu komin út fyrir það að vera bara einhver hátíð vegna mannréttindabaráttu samkynhneigðra. Þetta er hátíð fyrir alla þá sem láta sig lágmarksmannréttindi einhverju varða. Alla þá sem eru orðnir leiðir á hatrinu og níðinu - inni á netinu, öllum ógeðslegu kommentunum sem hægt er að segja um alla minnihlutahópa.
Það er engu líkara en sá eini sem fær að vera í friði í þessum heimi sé hvítur straight karlmaður í jakkafötum, hægrisinnaður og á peninga. Og stundum er þessi karlmaður með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni. Allt annað má kalla einhverjum nöfnum. Allt annað er hægt að uppnefna: „Helvítis femínisti, helvítis kellingar, helvítis hommar, helvítis þið, bla, bla!“ Þannig að út með kvenfyrirlitninguna, út með fyrirlitningu á öðrum kynþáttum, öðru fólki sem er af annarri stöðu og stétt en þú. Við eigum öll að sitja við sama borð. Og til þess er þessi dagur. Við verðum að gera þetta einu sinni á ári. Við megum ekki sofna á verðinum.“