Aðeins sést í eitt dekk á rútunni sem valt út í Blautulón í gær. Farþegarnir, sem allir sluppu ómeiddir voru í Vík í nótt, en þeir voru í áfalli eftir atburði gærdagsins.
Rauði krossinn í Vík tók á móti fólkinu í gærkvöldi og lét það fá þurr föt, en allur farangur þess var í rútunni. Jafnframt var fólkinu gefið tækifæri til að hringja heim til Tékklands, en allir í rútunni voru frá Tékklandi.
Ellefu af þeim 22 sem voru í hópnum voru á bakkanum þegar rútan valt. Hinir voru í rútunni. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru þeir sem voru á bakkanum að taka myndir af rútunni þegar hún ók í vatnið, en vegurinn liggur að hluta til ofan í lóninu. Fólkið horfði á rútuna hverfa ofan í lónið.