Ríkisstjórnarflokkarnir eru að takast á við 50 milljarða fjárlagagat og þeir hafa einsett sér að lækka hallann um 28 milljarða á næsta ári. Þetta sagði Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar í samtali við RÚV.
Vinna við gerð fjárlagafrumvarps ársins 2012 er langt komin. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa myndað sex manna hóp sem ætlar að skila tillögum í ríkisfjármálum á þriðjudaginn.
Oddný sagði að ekki stæði til að hækka tekjuskatt á einstaklinga. Hún sagði að búið væri að minnka fjárlagahallann úr 150 milljörðum í 50 milljarða og á næsta ári myndu menn lækka hann um 28 milljarða.
Samkvæmt áætlun í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin samþykkti í febrúar 2009 á að skila ríkissjóði með afgangi árið 2013.