„Þau voru mjög heppin“

Eins og sjá má er grunnt við bakka lónsins, en …
Eins og sjá má er grunnt við bakka lónsins, en lónið sjálft er djúpt. Ljósmynd/Oddur Eiríksson

„Þau voru mjög heppin,“ segir Helga Þorbergsdóttir hjúkrunarfræðingur í Vík, sem hefur ásamt fleirum tekið þátt í að hlúa að Tékkunum sem lentu ofan í Blautulóni í gær. Hópurinn hefur ekki ákveðið framhald ferðalagsins, en samkvæmt ferðaplaninu átti hann að fara heim í vikunni.

Ferðamennirnir gistu í nótt á hótelum í og við Vík. Fararstjóri var í morgun að ræða við farþega um næstu skref. Í hópnum eru 22 einstaklingar á ýmsum aldri, m.a. hjón með tvö börn.

Kafarar köfuðu niður að rútunni í gærkvöldi og björguðu farangri fólksins í land, en rútan sjálf liggur enn á botni lónsins.

Rauði krossinn í Vík opnaði fjöldahjálparstöð í gær og útvegaði ferðamönnunum þurr föt. Helga sagði að blautu fötin hefðu verið þvegin og þurrkuð í gærkvöldi og þeim síðan verið skilað í morgun.

Helga sagði að fólkinu hefði verið boðin læknisaðstoð og reynt hefði verið að hlúa að því eins og hægt var.

Lögreglan á eftir að ljúka rannsókn á óhappinu og mun í dag ræða betur við bílstjóra og fararstjóra hópsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka