Leiguvél er á leið til Inverness í Skotlandi til að sækja farþega Iceland Express, en vél sem þeir voru í millilenti þar af öryggisástæðum fyrr í dag. Um borð í vélinni voru 146 farþegar og áhöfn.
Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að farþegarnir hafi fengið regluleg smáskilaboð um stöðu mála og nógan mat og drykk meðan þeir hafa þurft að bíða.
Ákveðið var að senda leiguvél eftir farþegunum í stað þess að láta þá bíða eftir að flugvirkjar yfirfæru vélina. Reiknað er með að leiguvélin fari frá Inverness um klukkan 21:00 að staðartíma.