Þrír kafarar unnu að því að koma belgjum fyrir undir langferðarbílnum í Blautulóni í dag. „Það hefði geta farið illa, við hefðum auðveldlega getað velt langferðarbílnum í lóninu en þetta gekk vonum framar,“segir Einar Kári Björgvinsson kafari frá Köfunarþjónustunni.
„Við komum belgjunum fyrir í gærkvöldi en byrjuðum síðan klukkan átta í morgun,“ segir Einar Kári.
Einar Kári segir rútuna hafa verið á ekki meira en 10 m dýpi og þeir hafi samtals unnið í 12 til 13 tíma til að koma langferðarbílnum í land.
Aðstæður hafi verið góðar og auðveldari heldur en í sjó.
Guðmundur Ingi Ingason varðstjóri lögreglunnar á Hvolsvelli segir að lögreglunni hafi verið afhent upptaka af því þegar langferðarbíllinn rann í lónið.
„Þarna hefði auðveldlega geta orðið banaslys,“ segir Guðmundur Ingi.
Unnið sé að rannsókn málsins en flest bendi til þess að rútan hafi keyrt of nálægt lóninu með þeim afleiðingum að hún rann ofan í það.
Ekki hafi orðið slys á þessu svæði áður en mjög varlega þurfi að keyra á veginum svo ekki fari illa.
Ökumanni rútunnar hafi tekist að bjarga 11 manns með sjálfum sér á innan við mínútu en hann hefur reynslu af björgunarstörfum í Tékklandi.
Eftir að rannsókn málsins er lokið mun koma í ljós hvort að gefin verði út ákæra á hendur ökumanninum eða ekki.
Fulltrúar frá Vatnajökulsþjóðgarði eru að athuga hvort ekki eigi að setja viðvörunarskilti við veginn.