„Þetta mun auðvitað hafa veruleg áhrif á verðlag, það er engin spurning,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga, aðspurður út í hugsanlegt útspil ríkisstjórnar að hækka virðisaukaskatt á matvæli í tuttugu prósent.
„Það verður líka að hafa það í huga að innflutt matvara er skattlögð í innflutningi,“ segir Finnur og bendir á að ef virðisaukaskattur verði hækkaður, væri eðlilegt að aðrir skattar á borð við vörugjöld og tolla væru lagðir af.
Finnur segir ljóst að í kjölfar efnahagshrunsins hér á landi hafi fólk bæði kosið að versla ódýrari og innlenda vöru.
„Ég held að það verði ekki sparað meira með því að breyta neyslumynstrinu þannig að ég held að hækkun á virðisaukaskatti fari að langstærstum hluta beint út í verðlagið.“
Aðspurður hvaða áhrif hækkun virðisaukaskatts muni hafa á fyrirtæki Haga segir Finnur ljóst að samdráttur í neyslu muni eiga sér stað. Hann segir hækkun virðisaukaskatts verða tekna úr veski almennings því heimilin munu áfram þurfa að kaupa mat.