Jónas Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, segir ljóst að verði virðisaukaskattur á matvæli hækkaður muni það hafa afleiðingar fyrir heimilin í landinu.
„Mér líst mjög illa á þetta og það mun koma mjög hart niður á þeim sem verst eru settir og berjast við að ná endum saman,“ segir Jónas.
Hann segir brýnt að ríkisstjórnin komi með einhvern mótleik verði virðisaukaskatturinn hækkaður. Margir af hans skjólstæðingum eiga mjög erfitt með að ná endum saman að hans sögn og verði skatturinn hækkaður í tuttugu prósent muni það einungis þyngja róðurinn enn frekar.
Að meðaltali eru um það bil fimm þúsund fjölskyldur á landsvísu sem hafa þegið aðstoð. Inni í þeirri tölu eru ekki einungis barnafjölskyldur heldur einnig einstaklingar og pör.
Jónas býst við að fá til sín fleiri skjólstæðinga hækki verðlag á matvöru. „Margt af þessu fólki lifir algerlega á mörkunum.“