Niðurstöður ungatalningar í rytubyggðum á Snæfellsnesi, sem lauk í gær, eru vægast sagt slæmar. Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, taldi við annan mann og sáu þeir aðeins sjö unga.
Á þeim svæðum sem þeir töldu eru á bilinu 200-300 hreiður. Í meðalárferði má búast við að hvert hreiður gefi af sér 1-1½ unga, segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Líkt og krían reiðir ritan sig mikið á sandsíli, ekki síst til að fóðra unga. Og líkt og hjá kríunni virðist sem algjört hrun hafi orðið í varpi rytunnar. „Þetta passar við það hvernig gekk hjá kríunni; þar drapst allt upp úr mánaðamótum. Einn og einn ungi á flugi en ekki meira,“ sagði Jón Einar.
Víða af landinu berast fréttir um slæman varpárangur, m.a. virðist sem varp kríunnar við Skjálfanda hafi að mestu misfarist. Þar sáust þrír ungar í hópi nokkur hundruð eldri fugla. Fyrir nokkrum árum var þar allt krökkt af ungum á þessum tíma.