SVÞ (Samtök verslunar og þjónustu) telja brýnt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem og fjármálaráðherra, bregðist við niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um að úthlutun tollkvóta á landbúnaðarvörum stangist á við ákvæði stjórnarskrár.
SVÞ sendu hinn 24. júní 2010 kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna þriggja reglugerða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um tollkvóta vegna innflutnings á nautgripa-, svína- og alifuglakjöti, smjöri og ostum og unnum kjötvörum.
Kvörtun samtakanna sneri nánar tiltekið að meðferð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á þeim heimildum sem honum eru fengnar í lögum til að úthluta tollkvótum (WTO) vegna innflutnings á landbúnaðarvörum. Taldi SVÞ núverandi fyrirkomulag í heild ómarkvisst, ógegnsætt og umfram allt andstætt góðum stjórnsýsluháttum.
„Umboðsmaður birti álit sitt hinn 18. júlí síðastliðinn. Kjarni niðurstöðu umboðsmanns er að núgildandi heimildir ráðherra til ákvörðunar um álagningu tolla séu of víðtækar. Af þeim sökum sé gengið lengra við framsal valds til ráðherra en stjórnarskrá heimilar, sbr. 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Í fyrrnefndum greinum segir m.a. að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum og ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Niðurstaða umboðsmanns er alvarleg áminning um að víða eru brestir í lagaumgjörð íslenskrar stjórnsýslu. Um árabil hefur ráðherra byggt ákvarðanir sínar um tollkvóta á heimildum, sem stóðust ekki grundvallaratriði stjórnarskrárinnar.
Brýnt er að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem og fjármálaráðherra, bregðist eins fljótt og kostur er við niðurstöðu umboðsmanns. Hagsmunir íslenskra neytenda og íslenskrar verslunar eru í húfi. Af þessu tilefni hefur framkvæmdastjóri SVÞ ritað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um til hvaða aðgerða ráðuneytið hyggist grípa í kjölfar niðurstöðu umboðsmanns," segir í tilkynningu frá SVÞ.