Samtök ungra bænda telja að rangt sé farið með staðreyndir í umfjöllun fjölmiðla um sauðfjárrækt og nefna Þórólf Matthíasson deildarforseta hagfræðideildar HÍ í því sambandi.
Á stjórnarfundi samtakanna sem haldinn var í gær, 8. ágúst var samþykkt ályktun þar sem skorað er á rektor Háskóla Ísland að beita sér fyrir faglegum vinnubrögðum og málefnalegum málflutningi starfsfólks háskólans í almennri fjölmiðlaumræðu hér á landi.
„Á undanförnum misserum hefur Þórólfur Matthíasson deildarforseti hagfræðideildar HÍ farið mikinn í fjölmiðlum í tengslum um sauðfjárrækt sem atvinnugrein í heild sinni. Í skrifum og orðræðu deildarforsetans hefur hann farið rangt með staðreyndir og verður þekking hans á málefninu að teljast fullkomlega yfirborðskennd. Lýsa Samtök ungra bænda jafnframt undrun sinni á því að hagfræðiprófessorinn skuli ekki hafa aflað sér betri upplýsing um fyrirkomulag sauðfjárframleiðslu á Íslandi áður en hann tók að fjalla um atvinnugreinina á vettvangi fjölmiðla,“ segir í yfirlýsingunni.
„Háskóli Íslands er virt mennta- og fræðastofnun sem nýtur trausts í samfélaginu og ber mikla samfélagslega ábyrgð sem slík. Því er eðlileg krafa hins almenna skattgreiðanda að þeir sem gegna ábyrgðarstöðum við stofnunina láti fagmennsku ávalt vera í fyrirrúmi í umfjöllun sinni um málefni á opinberum vettvangi og setji hvorki fram tilhæfulausar staðhæfingar né heldur blandi pólitískum skoðunum sínum á óskyldum málefnum inn í umræðuna.“