Aðalsjóður rekinn með tapi næstu ár

Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson
Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Gnarr borgarstjóri lagði fram frumvarp að þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2012-2014 á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag. Gert er ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu aðalsjóðs allt tímabilið en auk aðalsjóðs myndar eignasjóður A-hluta. Aftur á móti er gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu A-hluta öll árin. Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta verði 65,6 milljónir króna í ár, 30,3 milljónir árið 2012, 60,8 milljónir 2013 og tæpar sex milljónir árið 2014. Það þýðir að afkoman versnar um 90,9% á milli áranna 2011 til ársins 2014.

Áætlað er að rekstrarniðurstaða aðalsjóðs fari frá því að vera neikvæð um 2,9 milljarða árið 2011 í rúmlega 4,6 milljarða árið 2014.

Áætlað er að eignir aðalsjóðs dragist saman um 20,3% á tímabilinu og verði í lok þess 58,5 milljarðar króna. Samdrátturinn skýrist einkum af niðurgreiðslu eignasjóðs á skuld sinni við aðalsjóð. Þá er áætlað að eigið fé rýrni um 23% og verði tæpir 44 milljarðar króna árið 2014.

Áætlað er að staða eignasjóðs batni á tímabilinu einkum vegna lækkunar á fjármagnsgjöldum en nánar er hægt að lesa um áætlunina hér 

Frumvarpið byggist á endurskoðaðri fjárhagsáætlun A-hluta fyrir árið 2011 og endurskoðaðri áætlun Orkuveitu Reykjavíkur. Við gerð þess er í öllum aðalatriðum fylgt sömu aðferðafræði og viðhöfð hefur verið við tvær síðustu þriggja ára áætlanir, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Nýir kjarasamningar og margvíslegar breytingar á tekju- og útgjaldahlið borgarsjóðs kalla á mikla vinnu við endurskoðun á forgangsröðun fjármuna sem unnið er að um þessar mundir. Niðurstaða þeirrar vinnu mun birtast við framlagningu á frumvarpi að fjárhagsáætlun 2012 og fimm ára áætlun 2012-2016,“ segir í tilkynningu.

Síðari umræða og afgreiðsla þriggja ára áætlunar fer fram í borgarstjórn 17. ágúst 2011.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert