Borgaryfirvöld hafa verið áminnt þrisvar

Ráðhús Reykjavíkur
Ráðhús Reykjavíkur mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þriggja ára áætlun var lögð fram á aukafundi borgarstjórnar í dag en fundurinn var haldinn að ósk minnihluta vegna vanskila meirihlutans á áætluninni og áminninga sem borist höfðu frá innanríkisráðuneytinu.  

Borgaryfirvöld hafa verið áminnt þrisvar af opinberum aðilum á síðastliðnum vikum vegna vanskila á fjárhagsáætlun og ársreikningi. 

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavíkurborg, segir að það sé einsdæmi að meirihlutinn hafi ekki getað haldið utan um grunnrekstur borgarinnar og þurfi að þola áminningar og fjársektir eins og þær 1,5 milljónir sem Kauphöllin krafði borgina um vegna vanrækslu á birtingu ársreiknings. 

Hún segir að með því að sýna slíka vanrækslu rýri meirihlutinn traust til borgaryfirvalda og skaði það góða orðspor sem borgin hefur haft í fjármálum.

„Sú staða sem upp er komin er grafalvarleg og sú staðreynd að borgarstjórn er hérna á aukafundi vegna málsins staðfestir getuleysi meirihlutans til að halda utan um einföldustu skyldur sveitarfélagsins,“ segir Hanna Birna.

Í ræðu sinni í dag sagði Hanna Birna meðal annars: „Það er algjörlega óviðunandi og óafsakanlegt að stærsta sveitarfélag landsins sé að leggja þriggja ára áætlun fram hálfu ári of seint. Það virðist einfaldlega sem meirihlutinn ráði ekki við verkefnið, ráði ekki við algjöra grunnþætti í rekstri borgarinnar.“ 

Ennfremur sagði hún að borgin hefði á örfáum vikum í sumar fengið þrjár áminningar frá opinberum aðilum vegna vanskila og vondra vinnubragða.

„Afsakanir sem notaðar hafa verið halda ekki, meira að segja frasinn um reynsluleysið er orðinn ofnotaður. Það er einfaldlega komið nóg af ráðaleysi borgaryfirvalda og löngu kominn tími til að forystufólk meirihlutans taki á málum af meiri metnaði, ábyrgð og alvöru.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert