Nýlegar niðurstöður rannsókna Trausta Jónssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, sýna að litlar breytingar hafa orðið á hita síðan veðurstöð var færð frá Egilsstöðum að Egilsstaðaflugvelli.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að hiti er aðeins um 0,1 til 0,3 gráðum lægri á sumrin á Egilsstaðaflugvelli en í bænum.
Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í gær telur Ásta Þorleifsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Austurlands, að Egilsstaðaflugvöllur liggi í „kuldapolli“ og því sé oft ósamræmi milli staðbundinnar veðurspár Veðurstofu Íslands fyrir Egilsstaðaflugvöll og þess veðurs sem er á Egilsstöðum. Slíkt ósamræmi ætti að verða til að breytingar yrðu gerðar á veðurathugunum.
Að sögn Trausta er ein helsta ástæða þess að ekki hefur verið ráðist í breytingar á veðurstöðvum á Egilsstöðum kostnaður sem því fylgir.