„Má ekki bara veiða meira?“

Gugga ÍS að koma til hafnar í Bolungarvík um hádegi …
Gugga ÍS að koma til hafnar í Bolungarvík um hádegi í gær. Síðasti túr og veiðum lokið á þessu ári í strandveiðunum. Kristján L. Möller

Þessa stundina eru 716 skip á sjó í kringum landið samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Síðasti dagur strandveiða á svæði A sem nær frá Hnappadal til Súðavíkur var í gær og var fjöldinn þá 872 skip um svipað leyti.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins er ekki óvarlegt að ætla að um 80% af afla ágústmánaðar á svæði A hafi verið kominn á land í gær.

Á öðrum svæðum var veiðin skemmra á veg komin og ekki er ósennilegt að veiðileyfi verði í gildi út ágústmánuð á sunnan- og austanverðu landinu.

Kristján L. Möller, alþingismaður Samfylkingarinnar, gerir lokunina á svæði A að umtalsefni á Facebook-síðu sinni og birtir myndir frá höfninni í Bolungarvík. Segir hann nauðsynlegt og fræðandi fyrir alþingismenn að hitta sjómennina og heyra þeirra sjónarmið.

„Má ekki bara veiða meira?“ spyr Kristján þar sem allt hafi verið krökkt af fiski þar í gær.

Facebook-síða Kristjáns L. Möllers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert