„Okkur líst bara mjög illa á þetta. Ef þetta bætist við þá er trúverðugleikinn endanlega fokinn,“ segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, um tillögur ríkisstjórnarinnar að fjárlögum fyrir næsta ár. Meðal þess sem er rætt, er að hækka skatta á stóriðjufyrirtæki og sjávarútveginn.
Orri segir nógu erfitt að reyna að koma hér af stað fjárfestingu og þá sérstaklega í útflutningsiðnaði. Auknar álögur þar séu í raun skattlagning á versta stað í hagkerfinu, sem dragi úr tiltrú fjárfesta og því að ný fjárfesting eigi sér stað. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, tekur í sama streng og segir sjávarútveginn ekki þola meiri álögur.
Nýtt fjárlagafrumvarp hefur verið til umræðu meðal alþingismanna undanfarna daga. Þar ber hæst, auk umræðu um skattahækkanir á atvinnulífið, 1,5% niðurskurð í velferðarmálum á næsta ári og 3% niðurskurð innan stjórnsýslunnar. Oddný Harðardóttir, formaður Fjárlaganefndar, segir þessar tölur þó ekki niðurnegldar heldur einungis viðmið í umræðum.