Alexander Hrafnkelsson, blindur einstaklingur sem búsettur er í Mosfellsbæ, hefur stefnt bæjarfélaginu þar sem að hann telur að bæjarfélagið hafi vanrækt lögboðnar skyldur sínar gagnvart honum.
Á vef Blindrafélagsins kemur fram að í málinu, sem var þingfest í gær, er tekist á um það hvort Mosfellsbær hafi uppfyllt lögboðna skyldu sína þess efnis að veita fötluðum íbúum sveitarfélagsins þá ferðaþjónustu sem þeir eiga rétt á.
„Um er að ræða mál sem snertir grundvallarréttindi fatlaðs fólks til að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda eins og ófatlaðir."
Alexander gerir þá kröfu að Mosfellsbær veiti honum þjónustu sem er sambærileg við þá sem Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög veita fötluðu fólki í hans stöðu. Þeirri beiðni hefur Mosfellsbær hins vegar hafnað og boðið Alexander ferðaþjónustu með reglubundnum hópferðum. Þá þjónustu getur Alexander hins vegar ekki nýtt sér þar sem hún er ekki í boði þegar hann þarf að komast í og úr vinnu sinni.
Málið hefur hlotið flýtimeðferð hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og mun niðurstaða þess líklega hafa víðtæk áhrif fyrir stóran hóp fatlaðs fólks," segir á vef Blindrafélagsins.
„Þetta er í raun mjög sérstakt. Ég er að fara fram á þjónustu sem er ódýrari, hagkvæmari og betri. Mosfellsbær býður mér hins vegar þjónustu sem er dýrari, óhagkvæmari og verri," segir Alexander Hrafnkelsson á vefnum.