Framkvæmdastjóri tékknesku ferðaskrifstofunnar sem skipulagði hópferð 22 tékkneskra ferðamanna að Blautulóni biður Íslendinga afsökunar á óhappinu. Ferðaskrifstofan segist ætla að greiða allan kostnað sem fallið hafi vegna þess og hún ætlar að láta laga skemmdir sem kunna að hafa orðið við Blautulón.
„Við viljum einlæglega biðja Íslendinga og náttúru landsins afsökunar,“ segir í yfirlýsingunni sem Petr Novotný, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar, sendi fjölmiðlum í kvöld.
„Við viljum þakka öllum borgurum Íslands sem hjálpuðu okkur á síðustu dögum og buðu fram aðstoð, gistingu, hlý föt og mat meðan á björgun ferðamannanna stóð yfir. Við þökkum einnig hótelum og þeim sem buðu fram hús sín og þeim sem björguðu farangri ferðamannanna úr bílnum. Við þökkum sem fluttu ferðamennina á flugvöllinn og greiddu fyrir því að þeir kæmust í flug, m.a. þeim sem buðu fram hressingu í flugvélinni. Við fundum virkilega fyrir hlýjum stuðningi. Við þökkum líka þeim sem hjálpuðu við að ná bílnum upp af botni Blautulóns og aðstoðuðu við að laga bílför á bakkanum. Við kunnum að meta vináttu og hjálp sem okkur hefur verið sýnd í þau 20 ár sem við höfum starfað í ferðaþjónustu.
Við höfum frá því á 10. áratugnum sýnt hundruðum ferðamanna hið fallega land ykkar, fyrst á rútum, þá litlum bílum og síðustu fjögur sumur á Tatra-rútu. Í þeim hópi hafa verið náttúruunnendur, ljósmyndarar, sérfræðingar á sviði dýralífs og gróðurlífs. Frá upphafi hefur fyrirtækið lagt áherslu á að virða náttúruna, menningu heimamanna, kynþætti og trú. Við hörmum það óhapp sem átti sér stað í þjóðgarðinum.
Starfsfólk okkar, fararstjórar og ökumenn, leggja áherslu á að vinna með íslenskri náttúru. Starfsfólkið hefur eignast marga vini á Íslandi. Það þekkir sögu, fegurð landsins og getur talað um hana klukkustundum saman. Starfsfólkið hefur leitast við að aðstoða þá sem þurft hafa á hjálp að halda. Á síðasta ári aðstoðuðum við fimm bíla sem voru fastir eða höfðu lent í vandræðum.
Ferðir á vegum fyrirtækisins okkar hafa efnahagsleg þýðingu fyrir Ísland. Við borgum árlega meira en 100 þúsund evrur fyrir þjónustu og ferðamenn okkar eyða þúsund evra á Íslandi. Við erum stærsta ferðaþjónustufyrirtæki í Íslandsferðum í Tékklandi. Við auglýsum ferðirnar víða og höfum áform um að stækka enn frekar. Okkur þykir vænt um Ísland og kunnum að meta það.“
Í yfirlýsingunni segir að sl. laugardag hafi hópurinn stoppað við Ófærufoss og borðað þar nesti. Starfsmaður þjóðgarðsins hefði þá bent fararstjóra á leið að Blautulónum og merkt leiðina inn á kort, en hann hefði sagt þetta vera fallegt svæði.
„Við fylgdum ráðleggingum þjóðgarðsvarðarins og ókum að Blautulóni þar sem við sáum slóða. Við ókum hann án vandræða með alla farþegana. Helmingur hópsins fór síðan úr bílnum ásamt öðrum bílstjóranum og hinn helmingurinn ákvað að endurtaka ferðina. Þegar rútan var í sinni annarri ferð fór vinstra framhjólið óvænt að sökkva og bíllinn seig niður í vatnið. Bíllinn flaut um stund en sökk síðan í vatnið. Fararstjóri byrjaði strax að bjarga fólki út úr bílnum.
Meðan á björgun stóð urðu engir fyrir meiðslum og fararstjóra tókst að koma öllum farþegum í öruggt skjól.“
Í yfirlýsingunni er hörmuð neikvæð umræða í fjölmiðlum um ferðaskrifstofuna. Fullyrt er að myndskeiðum sem auglýstu ferðir til Íslands hafi verið stolið og sett í rangt samhengi án þess að ferðaskrifstofunni hafi gefist tækifæri til að koma að skýringum. Ferðaskrifstofan hafi fengið athugasemdir sem séu dónalegar og einkennist jafnvel af útlendingahatri. Ferðaskrifstofan harmar þetta. Hún segist að endingu ætla að gera allt til að tryggja að óhapp sem þetta endurtaki sig ekki.