Breytingar á skattkerfinu hafa verið margar í tíð núverandi ríkisstjórnar, á þeim krepputímum sem hún hefur stjórnað landinu síðan í maí 2009. Viðskiptaráð Íslands heldur á vef sínum töflu yfir breytingar á helstu sköttum og gjöldum og uppfærir reglulega.
Upplýsingarnar á meðfylgjandi mynd í Morgunblaðinu í dag, eru að mestu leyti unnar upp úr þeirri töflu en einnig með ábendingum frá embætti ríkisskattstjóra. Þær eru þó birtar með sama fyrirvara og viðskiptaráð hefur á töflunni, að vegna erfiðleika við að afla heildstæðra upplýsinga um breytingar á skattkerfinu frá opinberum aðilum getur verið að einstakar tölur stemmi ekki. Þá vantar inn í þetta breytingar á einstaka krónutölugjaldi.
Samkvæmt þessum upplýsingum hafa margir skattar verið hækkaðir og þrettán nýir skattar verið lagðir á. Vert er að geta þess að árið 2009 var hátekjuskattur lagður á en hann var afnuminn þegar þrepaskipting tekjuskatts var sett á laggir árið 2010. Þingmenn stjórnarflokkanna ræða nú sín á milli um frekari skattahækkanir í tengslum við fjárlagagerðina fyrir árið 2012, en nú síðast í vor voru gerðar breytingar á skattlagningu áfengis og tóbaks, auk þess sem sett voru lög um gistináttagjald og sérstakan bankaskatt.