Í lok júlí voru 12.253 manns atvinnulausir í landinu. Skráð atvinnuleysi í landinu var að meðaltali 6,6% í mánuðinum samkvæmt Vinnumálastofnun og lækkaði um 0,1% milli mánaða. Ástandið var því ögn skárra og fækkaði um 281 að meðaltali á skrá.
Að meðaltali voru 11.423 atvinnulausir í júlí. Sem fyrr var atvinnuleysið mest á Suðurnesjum, 10,3%, en næstmest á höfuðborgarsvæðinu, 7,6%. Minnst mælist atvinnuleysi á Norðurlandi vestra, aðeins 2%. Hlutfallslega voru ögn fleiri konur atvinnulausar en karlar, eða 6,8% á móti 6,5%. Fleiri karlar fóru líka af atvinnuleysisskrá í mánuðinum en konur. Að meðaltali fækkaði körlum um 343 en konum hins vegar um 62.
Um 62% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá í lok júlí höfðu verið án atvinnu í 6 mánuði eða lengur. Alls eru þeir nú 7.614 talsins og fjölgar um 33 frá lokum júní. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fækkar hinsvegar úr 4.609 í lok júní í 4.553 í júlílok.
Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í ágúst breytist lítið og verði á bilinu 6,4%-6,7%. Á sama tíma í fyrra var skráð atvinnuleysi 7,3% í ágúst, en 7,5% í júlí.