Hver ferð með Ferðaþjónustu blindra í Reykjavík er um þriðjungi ódýrari fyrir borgina en ferð með Ferðaþjónustu fatlaðra. Þetta segir Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, en einn félagsmanna þess hefur höfðað mál gegn Mosfellsbæ fyrir að vanrækja lögbundnar skyldur gagnvart sér.
Á grein á heimasíðu Blindrafélagsins ber Kristinn saman kostnað Reykjavíkurborgar við Ferðaþjónustu blindra annars vegar og Ferðaþjónustu fatlaðra hins vegar. Þar kemur fram að kostnaður borgarinnar er um 800 krónum meiri á hverja ferð hjá Ferðaþjónustu fatlaðra.
Hjá borginni eru blindum tryggðar ferðir með leigubílum á strætisvagnafargjaldi en sérútbúnir hópferðarbílar sem geta tekið við hjólastólum sjá um þjónustu fyrir fatlaða.
„Samkvæmt þessum tölum sem við höfum frá Reykjavíkurborg er hver ferð í Ferðaþjónustu blindra um það bil þriðjungi ódýrari fyrir borgina en hver ferð í Ferðaþjónustu fatlaðra. Þjónustustigið í Ferðaþjónustu blindra er miklu hærra og sveigjanlegra. Hún getur mætt persónulegum þörfum hvers og eins sem hin gerir ekki,“ segir Kristinn í samtali við Mbl.is.
Hann segir deiluna við Mosfellsbæ og Kópavog eiga sér margra ára sögu. Blindrafélagið hafi ítrekað bent á þetta en það hafi ekki fengið einu sinni viðræður til þess að útskýra muninn á þessum valkostum.
„Lagaskyldan varðandi þessa þjónustu er mjög skýr. Þetta er lögbundin þjónusta sem sveitarfélagið á að veita. Markmiðið með henni á að vera að gera þeim sem eru fatlaðir og geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur kleift að stunda atvinnu, nám og tómstundir. Þegar við erum með einstaklinga sem þurfa að komast ferða sinna með stuttum fyrirvara eða á þeim tímum þegar Ferðaþjónusta fatlaðra er ekki í gangi uppfyllir það úrræði ekki þetta markmið,“ segir Kristinn.
Kostnaðarsamanburðurinn á heimasíðu Blindrafélagsins.
Fyrri fréttir Mbl.is: