Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefur sent formönnum sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, utanríkismálanefndar og umhverfisnefndar Alþingis bréf vegna ummæla sem féllu á sameiginlegum fundi nefndanna í gær um málefni Alþjóða hvalveiðiráðsins. Gerir hann alvarlegar athugasemdir við framgöngu Marðar Árnasonar, formanns umhverfisnefndar, í kjölfar fundarins.
„Ráðuneytið vísar til fundar sem haldinn var í gær með sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, utanríkismálanefnd og umhverfisnefnd Alþingis. Tilefni fundarins var að veita upplýsingar um málefni Alþjóðahvalveiðiráðsins frá ársfundi ráðsins í sumar, en málefni hvalveiða falla undir verksvið sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og utanríkismálanefndar. Á fundinn mættu auk ráðherra ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri, aðal- og varafulltrúar Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu ásamt forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar.
Þingmenn spurðu margra spurninga sem ráðherra og embættismenn reyndu að leysa úr eftir fremsta megni og umræður voru almennt málefnalegar.
Augljóst var að skiptar skoðanir voru um hvalveiðar hjá þeim þingmönnum sem tjáðu sig á fundinum. Eftir sem áður liggur fyrir að Alþingi Íslendinga ályktaði árið 1999 að hvalveiðar skyldu stundaðar frá Íslandi. Þeirri ályktun hefur ekki verið breytt og eftir henni er unnið. Framganga sendinefndar Íslands á framangreindum ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins var í fullu samræmi við þessa stefnumótun að mati ráðuneytisins.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áréttar að mál þetta takmarkast ekki við hvalveiðarnar sjálfar þótt þær skipti auðvitað sínu máli í efnahagslegu tilliti. Hér er á ferðinni margfalt stærra hagsmunamál sem lýtur að réttinum til sjálfbærra veiða á lifandi auðlindum hafsins. Ráðherra telur að skýlaus réttur til sjálfbærra veiða skipti höfuðmáli fyrir þessa þjóð sem er svo háð sjávarútvegi þegar til allrar framtíðar er litið og undir það er að sjálfsögðu tekið í þingsályktun Alþingis.
Ráðuneytið gerir hins vegar alvarlegar athugasemdir við framgöngu Marðar Árnasonar, formanns umhverfisnefndar, í kjölfar þessa fundar. Mörður kýs að tjá sig um efni fundarins á veraldarvefnum og fulltrúa ráðuneytisins í honum með einkar ósmekklegum hætti, en þess ber að geta að Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar og fundarstjóri, kynnti í upphafi fundar að um væri að ræða lokaðan fund þar sem ætlast væri til að menn gætu átt hreinskiptnar umræður.
Ráðuneytin og embættismenn þeirra hafa fram að þessu getað veitt upplýsingar og átt heilbrigðar og málefnalegar umræður á fundum með nefndum Alþingis án þess að eiga það á hættu að ráðist sé að þeim með sviguryrðum og uppnefnum á opinberum vettvangi. Vonast er til að svo megi vera áfram," segir í bréfi ráðherra.