Sala á kjöti heldur áfram að dragast saman, samkvæmt samantekt Bændasamtakanna. Þar kemur fram að í júlímánuði var sala á nautakjöti 7,2% minni en hún var í sama tíma í fyrra og að ársfjórðungssalan hafi verið 5,4% minni. Þetta hefur jafnframt leitt til þess að árssalan á nautakjöti, sl. 12 mánuði, er nú 1,7% minni en 12 mánuðina þar á undan.
Landssamband kúabænda bendir á að á sama tíma og samdráttur hefur orðið í sölu á innlendu nautakjöti hefur innflutningur nautakjöts aukist verulega frá fyrra ári. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs nam innflutningurinn 132 tonnum en á sama tímabili 2010 var hann 42 tonn. Innflutningur á erlendu nautakjöti hefur því aukist um 314% á milli ára.
Það er ekki aðeins innlent nautakjöt sem selst minna því sé litið til sl. 12 mánaða hefur heildarsala á kjöti dregist saman um 4,1% og sýnir engin kjöttegund söluaukningu frá fyrra ári. Á landsvísu er mest sala á alifuglakjöti eða 6.854 tonn (29,6%). Þar á eftir kemur kindakjöt og svínakjöt.