Samkomulag hefur náðst um skiptingu eigna þrotabús Eyrarodda á Flateyri, að því er fram kom í hádegisfréttum Rúv. Niðurstaðan er sú að fiskvinnslufyrirtækið Lotna kaupi tvær eignir en Byggðastofnun leysi aðrar til sín.
Fyrirtækið Eyraroddi var úrskurðað gjaldþrota 17. janúar eftir að tilraunir til fjárhagslegrar endurskipulagningar mistókust. Í febrúar fékk Lotna ehf bráðabirgðaaðgang að eignum þrotabúsins, réð starfsfólk og hóf róðra. Á veðhafafundi 23. febrúar taldi fulltrúi Byggðastofnunnar hinsvegar ekki forsvaranlegt að selja eignir þrotabúsins til Lotnu vegna ferils eigenda félagsins í viðskiptum. Lagði Byggðastofnun til að eignirnar yrðu auglýstar til sölu. Hefur verið deilt í málinu síðan.
Þótt samkomulag virðist í höfn ríkir enn nokkur óvissa. Samkvæmt fréttastofu Rúv hefur Byggðastofnun leigt Lotnu bátinn Stjána Ebba ásamt byggðakvóta sem og saltfiskvinnsluhús Eyrarodda til mánaðamóta, eða út saltfiskvinnsluárið. Óljóst er hvað tekur við eftir það.