Sjá sér ekki annað fært en að hækka verðið

Bílaumferð í Reykjavík.
Bílaumferð í Reykjavík. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hækkanir hafa verið gerðar á verðskrám tveggja bifreiðaskoðunarstöðva af þremur í sumar. Framkvæmdarstjórar skýra hækkanirnar með dýrari aðföngum og auknum launakostnaði.

„Það hafa náttúrulega orðið hækkanir á ýmsum aðföngum og öðru slíku. Hitunarkostnaður hefur hækkað og rafmagn og ýmis aðföng til rekstrarins," segir Bergur Helgason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar. Verð fyrir aðalskoðun á bifreið undir 3,5 tonnum kostaði 8.640 krónur í júní en hefur nú í ágúst hækkað upp í 8.940 krónur, sem er 3% hækkun. Aðalskoðun er jafnframt með hæsta verðið í þessum skoðunarflokki. „Í áætlun ársins var gert ráð fyrir 4% hækkun um mitt ár en eftir að farið var í gegnum það var hún höfð 3%, við reyndum að draga úr því eins og hægt er," segir Bergur.

Enn er lægsta verðið fyrir skoðun á bílnum hjá skoðunarstöðinni Tékklandi, en þar hefur það samt sem áður hækkað úr 7.495 kr í júní upp í 7.945 kr í ágúst. Það er 6% hækkun. Birgir Hákonarson, framkvæmdastjóri Tékklands, segir að breytinguna megi fyrst og fremst rekja til nýrra kjarasamninga. „70% af okkar kostnaði er launakostnaður, og þegar launin hækkuðu þá þurftum við að mæta því með einhverjum hætti. Við erum ekki að selja neina aðra þjónustu en þetta og megum t.d. ekki selja varahluti, þannig að einu tekjurnar okkar eru skoðunarþjónusta og við sáum okkur ekki annað fært en að hækka verðskrána vegna launahækkana."

Tékkland hefur verið starfrækt síðan í maí 2010 og hefur frá stofnun boðið lægsta verðið. Birgir segist sannfærður um að þrátt fyrir verðhækkun núna hafi tilkoma Tékklands orðið til þess að halda aftur af hækkunum hjá hinum skoðunarstöðvunum vegna aukinnar samkeppni.  

Verð fyrir aðalskoðun fólksbíls undir 3,5 tonnum er þá sem hér segir hjá skoðunarstöðvunum þremur:

  • Aðalskoðun: 8,940 kr
  • Frumherji: 8.400 kr
  • Tékkland: 7.945 kr

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert