Það sem af er ári hafa 175 fasteignir verið seldar á lokasölu á nauðungaruppboði hjá sýslumanninum í Reykjavík. Embættið hefur nú til meðferðar 1.821 uppboðsmál vegna fasteigna. Þar af eru 580 mál vegna greiðsluaðlögunar.
Sigríður Eysteinsdóttir, deildarstjóri fullnustudeildar hjá sýslumanninum í Reykjavík, segir erfitt að spá fyrir um fjölda fasteigna sem seldar verði á lokauppboði á næstu mánuðum þar sem meirihluti uppboðsbeiðna sé afturkallaður.
Hún segir um 690 mál bíða fyrstu fyrirtöku en uppboð séu að hefjast á 539 málum. Framhaldssala hafi þó aðeins verið áveðin í 22 málum. Samkvæmt sýslumanninum í Reykjavík eru ekki til sambærilegar tölur um stöðuna eins og hún var á sama tíma fyrir ári.
Nauðungasala er oftast sala eða ráðstöfun á eign til innlausnar á verðmæti hennar til greiðslu á skuldum sem á henni hvíla. Erfitt er að segja til um hve stór hluti seldra fasteigna á nauðungaruppboðum eru heimili. Uppboðskerfi sýslumanna gefur ekki kost á sundurliðun eigna þ.e. hvort um sé að ræða fasteignir í eigu einstaklinga eða lögaðila þ.e. fyrirtækja. Þá taka tölurnar bæði til íbúðar- og atvinnuhúsnæðis.
Innanríkisráðuneytið hefur tekið saman nauðungarsölur um allt land fyrir árið 2010. Samkvæmt því voru flest nauðungarsölumál á heimilum eða alls 2.754. Þar af voru 412 heimili seld á uppboði. Algengast er að veðhafar verði hæstbjóðendur á nauðungaruppboði. Þeir eru oftast bankar eða Íbúðalánasjóður. Þá hafa lífeyrissjóðir sömuleiðis keypt talsvert af eignum. Íbúðalánasjóður er langstærsti kaupandi eigna á nauðungarsölum en í fyrra var sjóðurinn hæstbjóðandi á 1.733 nauðungaruppboðum.
Ekki er eins algengt að aðrir lögaðilar eða einstaklingar séu hæstbjóðendur. Íslandsbanki hefur keypt 53 íbúðir á nauðungarsölu það sem af er ári. Íbúðirnar eru oftast settar beint í sölu, en gerðarþola, þ.e. þeim sem átti eignina, gefst oft kostur á að leigja íbúðina í eitt ár frá uppboði. Arion banki hefur aðeins keypt 4 íbúðir á nauðungaruppboði á árinu. Þær eru settar í söluferli um leið og fyrrum eigandi er fluttur út.
Aðdragandi nauðungarsölu er sá að sá sem fer fram á nauðungarsölu vegna vanskila sendir sýslumanni beiðni um nauðungarsölu á tiltekinni eign. Algengustu uppboðsheimildir eru fjárnám og skuldabréf sem uppfylla ákveðin skilyrði. Gerðarþola gefst kostur á að koma fram mótmælum gegn beiðninni við fyrirtöku hjá sýslumanni
fasteignir hafa verið seldar á nauðungaruppboði í Reykjavík á árinu
1.821
uppboðsmál vegna fasteigna er nú til meðferðar
580
mál eru vegna greiðsluaðlögunar