„Þetta eru sögur fyrir unglinga og fullorðna, dálítið blóðugar, gerast í skálduðum heimi á miðöldum. Þarna eru ófreskjur, galdrar, afturgöngur...“ Svo lýsir Elí Freysson efnivið fantasíubóka sinna. Fyrsta bókin kemur út hjá Sögum í haust en Elí er líka búinn með næstu tvær og vinnur nú að þeirri fjórðu. Ítarlegt viðtal er við hann í Sunnudagsmogganum.
Elí er tæplega þrítugur Akureyringur með Asperger-heilkenni. Auk skrifta vinnur hann sem lagermaður í Nettó. Hann hefur fengist við skriftir í nærri áratug og árangur erfiðisins kemur senn í ljós. Tómas Hermannsson hjá Sögum tók Elí vel þegar hann sendi honum póst með þremur löngum fantasíusögum, tilbúnum til útgáfu. „Ég var búinn að prófa allar útgáfur á Íslandi nema tvær þegar ég talaði við Tómas. Menn hafa sjálfsagt ekki þorað að gefa út sögu eftir algjörlega óreyndan mann,“ segir Elí sem var himinlifandi þegar Tómas ákvað að gefa sögurnar út. Elí vinnur nú að því að þýða kafla úr bókinni á ensku því Tómas ætlar að sýna hann á bókaráðstefnunni í Frankfurt í október.