„Þetta eru sögur fyrir unglinga og fullorðna, dálítið blóðugar, gerast í skálduðum heimi á miðöldum. Þarna eru ófreskjur, galdrar, afturgöngur...“ Svo lýsir Elí Freysson efnivið fantasíubóka sinna. Fyrsta bókin kemur út hjá Sögum í haust en Elí er líka búinn með næstu tvær og vinnur nú að þeirri fjórðu. Ítarlegt viðtal er við hann í Sunnudagsmogganum.
Elí er tæplega þrítugur Akureyringur með Asperger-heilkenni. Auk skrifta vinnur hann sem lagermaður í Nettó. Hann hefur fengist við skriftir í nærri áratug og árangur erfiðisins kemur senn í ljós. Tómas Hermannsson hjá Sögum tók Elí vel þegar hann sendi honum póst með þremur löngum fantasíusögum, tilbúnum til útgáfu. „Ég var búinn að prófa allar útgáfur á Íslandi nema tvær þegar ég talaði við Tómas. Menn hafa sjálfsagt ekki þorað að gefa út sögu eftir algjörlega óreyndan mann,“ segir Elí sem var himinlifandi þegar Tómas ákvað að gefa sögurnar út. Elí vinnur nú að því að þýða kafla úr bókinni á ensku því Tómas ætlar að sýna hann á bókaráðstefnunni í Frankfurt í október.
Lætur ímyndunaraflið ráða
Aðdragandinn að skrifum Elís er ekki flókinn, honum finnst gaman að láta ímyndunaraflið ráða ferðinni og fór bara að skrifa því hann langaði til þess. „Ég vinn í Nettó frá sjö á morgnana til tvö og skrifa ekki á meðan, og á það til að stíflast eða vera upptekinn af öðru. En ég skrifa þegar ég hef tíma og ímyndunaraflið er fyrir hendi. Það tekur reyndar minnstan tíma að skrifa; aðalmálið er að fá góða hugmynd að fléttu og karakterum. Þegar það er klárt kemur textinn tiltölulega fljótt. Það mikilvægasta í þessum bransa er hins vegar að endurskrifa og að vera viljugur til þess; ég var 14 mánuði með fyrstu útgáfu af fyrstu bókinni, sem ég skrifaði reyndar á ensku, en þýddi hana seinna á íslensku og endurskrifaði ótal sinnum. Mér hefur farið mikið fram síðan þá. Maður lærir af reynslunni. Mig minnir að ég hafi verið tíu mánuði að skrifa þriðju bókina,“ segir Elí. Sem unglingur greindist hann með Asperger-heilkenni en veit ekki hvort það hefur haft áhrif á skrifin. „Ég efast þó um að ég væri að skrifa ef ég væri ekki svona sérvitur! Ég hangi að minnsta kosti heima við að skrifa í stað þess að gera eitthvað félagslegra og það hefur virkað mér í hag.“
Meðvitaður um hefðir formsins
„Ég get ekki betur séð en að Elí Freysson sé að ríða á vaðið með fantasíuformið í sinni nútímalegu mynd hér á landi, og
Meistari hinna blindu sé bókstaflega fyrsta skáldsaga sinnar tegundar í íslenskum bókmenntaheimi. Hann er sá fyrsti til að skrifa og gefa út harðkjarna póst-tolkíenska fantasíuskáldsögu sem er meðvituð um „lögmál“ og hefðir formsins, og vinkar til þeirra á vingjarnlegan hátt. Elí er líka úr kynslóðinni sem ólst upp með hlutverkaspil sem eðlilegan hluta af afþreyingarflórunni, og þess eru merki í skáldsögunni. Hún ber með sér að höfundur hefur lifað og hrærst í þessum heimi lengi, bæði lesið og spilað,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson, bókmennta- og kvikmyndafræðingur og stundakennari við HÍ, um fyrstu bók Elís, en ítarleg umfjöllun er um bækurnar og viðtal við Elí í Sunnudagsmogganum.