Krónan lítil en okkur betur borgið utan ESB

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hann hafi lengi verið þeirrar skoðunar að erfitt sé að vera með lítinn gjaldmiðil líkt og krónuna en hann er enn þeirrar skoðunar að Íslandi sé betur borgið fyrir utan Evrópusambandsins.

Hann segir að ástæðan fyrir þeim erfiðleikum sem steðji að á evrópskum og bandarískum mörkuðum megi rekja til þess að ríkin hafi eytt um efni fram. Þetta geti haft áhrif hér, meðal annars á útflutning Íslendinga en til lengri tíma litið er staða Íslands góð. 

Horft sé til Íslands sem fyrirmyndarþjóðar þegar kemur að lífskjörum og hér sé frábært að búa. Landið búi yfir miklum auðlindum, svo sem vatni og orku, og þær auðlindir eigi að nýta.

Hann segir fylgi Sjálfstæðisflokksins að vaxa og hann hafi trú á því að það eigi enn eftir að aukast. Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali við Bjarna á Sprengisandi, þætti Sigurjóns M. Egilssonar, á Bylgjunni í morgun.

Bjarni segir að það sé búið að draga það í fjögur ár að koma jafnvægi á ríkisfjármálin. Það verður ekki gert nema með niðurskurði og að koma á framkvæmdum. Hann gagnrýnir að ekki hafi tekist að koma á hagvexti á ný. Fyrsta verk hans yrði að koma atvinnulífinu til hjálpar ef hann fengi einhverju um það ráðið.

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að Landspítalinn hafi staðið sig mjög vel að ná niður kostnaði og spara. Hann telur að það eigi að vera samstarfsverkefni að loka fjárlagagatinu. Á meðan þjóðin safni skuldum sé grafið undan því háa velferðarstigi sem er á Íslandi.

Verkefnið hljóti að vera að vernda velferðina eins og hægt er. Bæði fyrri ríkisstjórnir og sú sem nú er við völd hafa skorið niður í fæðingarorlofssjóði. Það hafi þurft að gera.

Hann segir að ríkisstjórninni hafi algjörlega brugðist þegar kemur að því að auka verðmætasköpun í landinu. Bjarni tekur undir með Sigurjóni að ríkið hafi þanist of mikið út á tímum Sjálfstæðisflokksins við stjórnvölinn. 

Bjarni segir að núverandi ríkisstjórn hafi gjörsamlega glatað trúverðugleika þegar kemur að efnahagsmálum. 

Hér er hægt að hlusta seinni hluta þáttarins

Hér er hægt að hlusta á fyrri hluta þáttarins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert