„Við erum búnir að vera samningslausir í 255 daga alls, eða síðan í lok nóvember á síðasta ári. Síðast þegar að samningar voru lausir hjá okkur voru þeir lausir í rúmt ár, “segir Steinar Adolfsson, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna.
Steinar bendir á að ófaglærðir tollverðir séu á hærri launum heldur fagmenntaðir lögreglumenn. „Það tekur fagmenntaðan lögreglumann 15 ár að ná fagmenntuðum tollverði í launum.“
„Þetta geta lögreglumenn engan vegin sætt sig við og ljóst að ríkið þarf að gera verulega bragabót á þessari stöðu,“ segir Steinar.
Ennfremur bendir Steinar á, að um leið og starfsumhverfi lögreglumanna sé að verða erfiðara séu þeir að lækka í launum miðað við kaupmátt. „Umhverfið er alltaf að verða erfiðara fyrir okkur og álagið að aukast samhliða því. Við horfum upp á raunverulega fækkun lögreglumanna, sem gerir starfið enn meira krefjandi.“
„Vandamálið er að við höfum ekki verkfallsrétt og það endurspeglar þann langa tíma sem við erum samningslausir,“ segir hann og bætir við að lögreglumenn séu alltaf háðir því að viðsemjendur þeirra séu viðbúnir að mæta kröfum lögreglumanna af sanngirni.
„Ástandið í Þjóðmálunum er viðkvæmt, það má lítið út af bera til að fólk í landinu sýni óánægju sína í verki, samanber búsáhaldabyltinguna og það sem er að gerast í Bretlandi núna,“ segir hann og bætir því við að samkvæmt skoðunarkönnunum hefur mikil ánægja verið með störf lögreglunnar og traust í hennar garð er mikið.
„Fólk í landinu vill að þessi öryggisþáttur sé í lagi og það geti treyst á þjónustu lögreglunnar þegar á reynir,“ segir Steinar að lokum.