Vegið að leikreglum réttarríkisins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Í hátíðarræðu Hólahátíðar í dag sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að vegið væri að leikreglum réttarríkisins í dag og að samfélagssátmálinn væri ekki sjálfgefinn heldur þyrfti að verja hann.
 
„Réttarríkinu er ætlað að verja samfélagssáttmálann. Það er byggt á ákveðnum grunngildum, hlutum sem við teljum almenn sannindi út frá því siðferði sem okkur hefur verið innrætt.  Við teljum þessa hluti sjálfsagða og algilda.
 
En dramb er falli næst. Þegar menn fara að álíta hluti sjálfgefna eiga þeir á hættu að missa þá. Þegar harðnar á dalnum sjáum við hversu viðkvæmir þeir eru í raun. Þá getur skapast ástand sem sumir telja að megi nota til að hverfa frá grunngildunum. Bara dálítið í fyrstu, svona í samræmi við tilefnið, en þegar fyrstu skrefin eru stigin er hætta á að næstu skref fylgi á eftir.
 
Á undanförnum árum höfum við orðið vitni að því á Íslandi að vegið hafi verið að öllum grunnstoðum réttarríkisins:
 
Sakleysi uns sekt er sönnuð, jafnræði fyrir lögum, þrískiptingu ríkisvalds, friðhelgi einkalífs, eignarréttinum, gagnsæi í athöfnum hins opinbera, skýrleika í lagasetningu, vernd gagnvart misbeitingu laga, stöðugleika löggjafar, Áreiðanleika í aðgerðum stjórnvalda og banni við afturvirkni laga, reglum um meðalhóf í aðgerðum yfirvalda og einkaleyfi hins opinbera á valdbeitingu.
 
Frá þessum reglum má ekki víkja sama þótt reiði eða aðrir þættir tíðarandans æski þess. Þær eru einmitt settar til að vera vörn í slíkum sveiflum. Frávik má ekki afsaka með því að aðstæður kalli á það. Þannig hefur það alltaf verið þegar vikið hefur verið frá grundvallarréttindum, það er alltaf réttlætt með því að aðstæður krefjist þess í þágu heildarhagsmuna.
 
Réttarríkið er byggt á stjórnarskrá sem innheldur grundvallarreglurnar,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðu sinni á Hólum í dag.
 
Fara á varlega í breytingar á stjórnarskrá

Sigmundur Davíð sagði því vera mikilvægt að fara varlega í breytingum á stjórnarskrá og gæta þess að allar breytingar sem gerðar verði séu til bóta og stjórnist ekki af stundarhagsunum.
 
„Ég undirstrika að stjórnarskrá verður að vera meira en orð á blaði. Hún verður að endurspegla sannfæringu, þá sannfæringu þjóðarinnar og stjórnvalda að hún sé til þess ætluð að standa vörð um það sem er rétt og gott - og svo verður að fara eftir henni. Stjórnarskráin ein og sér veitir ekki vernd nema að baki henni búi samfélagssáttmáli sem á sér djúpar og sameiginlegar rætur.
 
Stjórnarskrá á ekki að vera pólitísk, hægri eða vinstrisinnuð. Hún er lýsing á þeim reglum sem við erum almennt sammála um hvort sem við erum til hægri eða vinstri eða á miðjunni. Þess vegna hefur iðulega verið leitast við að gera allar breytingar á stjórnarskrá landsins í sátt enda nær hún ekki tilgangi sínum ef ekki er samkomulag um að virða hana."
 
Orðræða leysir lýðræðið af hólmi

Sigmundur Davíð sagði að að stundum hvarflaði að honum að „orðræði“ hafi leyst lýðræði af hólmi.
 
„Það hefur verið mér nokkuð áfall að uppgötva að hversu litlu leyti stjórnmálaumræða snýst um rökræðu. Í stað rökræðunnar ræður orðræðan. Innihaldslausir frasar sem eru til þess ætlaðir að tala inn í tíðarandann.
 
Hver tekur sömu frasana eða tískuorðin upp eftir öðrum. Í fyrra var til dæmis mjög í tísku að nota orðið auðmýkt. Það er gott orð en var iðulega notað af þeim sem ætluðust til að aðrir sýndu sér eða skoðunum sínum, hinum réttu skoðunum, meiri auðmýkt. Þannig töluðu þeir stundum mest um auðmýkt sem áttu hana síst til. 


 Öfgar réttlættir út frá ástandinu

Sigmundur Davíð sagði að í því ástandi sem nú ríkti hefði ákveðinn tíðarandi tekið völdin sem ekki væri góður stjórnandi heldur óvæginn og hættulegur og þrifist á andúð, heift, róðgburði og gremju. Slíkt vegi að grunnstoðum samfélagsins.
 
„Öfgar og frávik frá grundvallarreglum sem áður voru taldar ófrávíkjanlegar eru réttlætt út frá ástandinu. Ástandið hefur verið notað til að réttlæta hegðun sem annars væri ekki ásættanlegt -hvort sem það er að grýta opinberar byggingar, ráðast að heimilum fólks eða beita samborgarana ofbeldi. Ofbeldið fer reyndar að mestu leyti fram í ræðu og riti. Sumir virðast telja að sér sé leyfilegt að segja hvað sem er óháð sannleiksgildi og án tillits til almenns velsæmis og réttlæta það fyrir sjálfum sér og öðrum með vísan til efnahagsþróunar."
  
„Auk þess að standa vörð um réttarríkið og ná sátt um stjórnarskrá þurfum við að ná sátt um að við búum í samfélagi sem samanstendur af ólíkum hópum sem hver um sig gegnir mikilvægu hlutverki. Við verðum að láta af baráttu ólíkra hópa og viðurkenna að samfélag er samvinnuverkefni.
 
Við höfum hráefnið og uppskriftina til að endurreisa samfélag velferðar fyrir alla.  Staða Íslands og framtíðarmöguleikar eru á margan hátt betri en flestra annarra landa. Við þurfum bara að læra að meta það sem máli skiptir, temja okkur náungakærleika og nærgætni í átökunum um leiðir og koma fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur,“ segir í tilkynningu.
 
 
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert