27,7% minna seldist af lambakjöti

mbl.is/Árni Torfason

27,7% minna seldist af lambakjöti í júlí en í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í tölum frá Bændasamtökum Íslands.

Undanfarnar vikur hefur talsvert verið rætt um skort á lambakjöt á innanlandsmarkaði, en mikið hefur verið flutt út af lambakjöti vegna þess að verð þar hefur verið gott og gengi krónunnar hagstætt. Tölur Bændasamtakanna benda til þess að framboð á lambakjöti hafi verið minna í sumar eða að minni áhersla hafi verið lögð á að auglýsa lambakjöt en áður.

Sláturleyfishafar hafa kynnt áform um að hefja haustslátrun tveimur vikum fyrr en áður var áformað. Óvíst er hver viðbrögð bænda verða, en kuldar framan af sumri gera það að verkum að margir bændur settu fé seinna á fjall en áður og almennt er reiknað með að þroski lamba sé seinna á ferðinni en undanfarin sumur.

Samkvæmt tölum Bændasamtakanna dróst sala á kjöti saman um 14,2% í júlímánuði borið saman við júlí í fyrra. Þetta er óvenjulega mikill samdráttur. Sala á kjúklingum dróst saman um 12,1% og 7,2% samdráttur varð í sölu á nautakjöti. Sala á svínakjöti jókst hins vegar um 1,9%.

Síðustu 12 mánuði hefur sala á kjöti dregist saman um 4,1%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert