Getur ekki breytt lögunum

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið mun taka athugasemdir umboðsmanns Alþingis varðandi úthlutun tollkvóta í landbúnaði til athugunar.

Í tilkynningu kemur fram að ráðuneytinu hafi borist álit umboðsmanns vegna úthlutunar tollkvóta í landbúnaði.

„Í áliti sínu staðfestir umboðsmaður að framkvæmd ráðherra er í samræmi við sett lög en tilefni álitsgerðarinnar er einmitt kæra Samtaka verslunar og þjónustu þar sem því er haldið fram að ráðuneytið hefði í reglugerðum farið út fyrir valdheimildir tollalaga nr. 88/2005.

Aftur á móti bendir umboðsmaður á að það vald sem Alþingi felur ráðherra til að víkja frá lögbundnum tollum kunni að vera rýmra en heimilt er samkvæmt stjórnarskrá.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið mun taka athugasemdir umboðsmanns til skoðunar í samráði við fjármálaráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis en ráðuneytið getur sem kunnugt er ekki breytt settum lögum," segir í tilkynningu.

Bætt inn klukkan 14:31 

Ráðuneytið hefur sent frá sér nýja tilkynningu vegna málsins:

„Vakin hefur verið athygli ráðuneytisins á að fréttatilkynningu þess frá því fyrr í dag mætti skilja sem svo að umboðsmaður Alþingis hafi úrskurðað í kærumáli Samtaka verslunar og þjónustu þar sem tollaheimildir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra voru véfengdar en svo er ekki.

Hið rétta er að umboðsmaður tók ekki afstöðu til kæruefnisins en komst að þeirri niðurstöðu að sett lög samrýmdust ekki Stjórnarskrá.

Aftur á móti segir í áliti umboðsmanns Alþingis:

Umboðsmaður rakti tiltekin ákvæði laga nr. 88/2005 og laga nr. 99/1993 og taldi að ekki yrði annað séð en að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði með framsali verið fengið vald til að ákvarða hvort sá afsláttur sem veittur væri frá greiðslu á fullum tolli samkvæmt tollalögum miðaðist við verð eða magn þeirrar vöru sem flutt væri til landsins í samræmi við tollkvóta samkvæmt viðaukum III A og B og IV A og B.

Beðist er velvirðingar á misskilningi sem framsetning ráðuneytisins kann að hafa valdið."


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert