Krefjast afnáms innflutningsbanns

mbl.is/Jim Smart

Neytendasamtökin taka undir orð Samtaka verslunar og þjónustu um að heimila innflutning á kjöti og breytingar verði gerðar á tollalögum.

„Neytendasamtökin krefjast þess að innflutningur á kjöti verði heimilaður þegar í stað og tollar afnumdir eða í það minnsta lækkaðir til muna. Fram hefur komið að skortur er á kjöti í landinu. Jafnframt hefur komið fram í áliti Umboðsmanns Alþingis við erindi Samtaka verslunar og þjónustu að þau lög sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra byggir ákvarðanir sínar á við ákvörðun á háum tollum gangi gegn stjórnarskránni. Þessum lögum verður tafarlaust að breyta.

Það er hlálegt að ráðherra beri við fæðuöryggi varðandi ákvarðanir sínar um innflutning og háa tolla á sama tíma og skortur er á kjöti í landinu. Þetta sýnir best þær ógöngur sem núverandi stefna í landbúnaðarmálum, með höftum og ofurtollum á innfluttar landbúnaðarvörur, er komin í.

Það er engin nýlunda að stjórnvöld láti hagsmuni neytenda sitja á hakanum þegar teknar eru ákvarðanir er varða landbúnaðarkerfið. Þannig hefur það ætíð verið. Neytendasamtökin undrast þó hversu einráður landbúnaðarráðherra virðist vera í ákvörðunum sínum. Það er engu líkara en stefnan í landbúnaðarmálum sé á forræði eins manns en ekki stjórnvalda," segir á vef Neytendasamtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert