Félagsmálaráð Akureyrar lýsir yfir áhyggjum sínum af þróun mála, en útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar fyrstu sjö mánuði ársins er 31% hærri en á sama tíma í fyrra. Ljóst þykir að fjárveiting ársins muni ekki nægja til að mæta þörf fyrir aðstoð.
Á síðasta fundi félagsmálaráðs lagði framkvæmdastjóri fjölskyldudeildar Akureyrar fram yfirlit yfir fjárhagsaðstoð eftir fyrstu sjö mánuði ársins. Útgjöldin voru 63.407.983 kr. sem er 31% hækkun miðað við á sama tíma árið 2010.
Fjölskyldudeildin veitir félagslega aðstoð af ýmsum toga og stendur þjónustan íbúum Akureyrar til boða og einnig hafa nágrannasveitarfélögin Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur og Svalbarðstrandahreppur gert samning við Akureyrarbæ um ráðgjafarþjónustu.
Markmið með félagslegri aðstoð á fjölskyldudeild er að koma einstaklingum og fjölskyldum til aðstoðar í tímabundnum erfiðleikum.