Fréttaskýring: Bótaþegar flytja sig um set til Reykjanesbæjar

Leiga þykur afar há í miðborg Reykjavíkur
Leiga þykur afar há í miðborg Reykjavíkur mbl.is/Ómar Óskarsson

„Tölurnar tala sínu máli. Þeim fer ekki fækkandi sem leita til okkar um aðstoð. Neyðin virðist þvert á móti að vera að aukast,“ segir Rúnar Már Sigurvinsson, rekstrarráðgjafi hjá félagsþjónustunni í Reykjanesbæ, um vaxandi þörf fyrir félagsaðstoð í sveitarfélaginu síðan niðursveiflan hófst 2008.

Tölurnar sem Rúnar Már vísar til má sjá hér til hliðar en úr þeim má lesa að frá hruni í október 2008 nemur fjárhagsaðstoð Reykjanesbæjar tæpum 300 milljónum króna. Aðstoðin er nú komin í 15 milljónir kr. á mánuði og mun að óbreyttu nema samanlagt 375 milljónum kr. á tímabilinu í árslok. Sé gengið út frá því að hún haldist svo óbreytt út næsta ár bætast við 180 milljónir kr. og fer heildarupphæðin þá í 555 milljónir frá hruni.

Væru 5.360 milljónir á höfuðborgarsvæðinu

Það er gríðarleg upphæð fyrir jafn lítið sveitarfélag. Það sést e.t.v. best á því að ef sama aðstoð væri veitt til hvers íbúa á höfuðborgarsvæðinu – sem nálgast nú 201.000 – myndi upphæðin stefna í 5,36 milljarða í lok þessa árs. Er reiknað með því að íbúar Reykjanesbæjar séu nú 14.073.

Rúnar Már segir erfiðan leigumarkað á höfuðborgarsvæðinu beina tekjulitlum í suðurátt.

„Það sem hefur líka verið að hrjá okkur hér er hin gríðarlega háa leiga sem einkennir markaðinn í Reykjavík. Þeir sem geta ekki staðið undir himinhárri leigu bregðast þá við og færa sig yfir í annað sveitarfélag og finna sér hentugri stað til að búa á. Við erum nálægt höfuðborgarsvæðinu og því er eðlilegt að margir horfi til þess að húsaleiga er allt að 40% ódýrari á Suðurnesjum en þar.“

Bótaþegum fjölgar um 31% milli ára

Máli sínu til stuðnings bendir Rúnar Már á mikla fjölgun fólks sem reiðir sig á fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Fjöldi þeirra vex stöðugt og má nefna að í júlí sl. þáðu 158 aðstoðina, eða 38 fleiri en í sama mánuði í fyrra. Nemur aukningin 31% milli ára. Annar samanburður er að 52 voru á listanum í september 2008, mánuðinum áður en þjóðarskútan fór á hliðina. Hefur fjöldi þeirra sem leita aðstoðar sveitarfélagsins því rétt ríflega þrefaldast frá efnahagshruninu og fer fjölgandi.

Ungt fólk með brostnar vonir

Anna Valdís Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ, kveðst aldrei mundu hafa trúað því að í Reykjanesbæ væri að finna svo mikið af ungu fólki með brostnar vonir.

„Þetta fólk á mikið bágt. Það hefur misst vinnuna og húsnæðið og eygir orðið enga von. Sumir þurfa að standa undir fjölskyldu. Maður tekur eftir því að fólk hefur smávegis milli handanna fyrstu vikuna í mánuðinum en er svo peningalaust fram að næstu mánaðamótum. Ástandið fer versnandi frekar en hitt. Það sér ekki fyrir endann á þessu. Við hjá Fjölskylduhjálpinni fáum nú orðið 240 fjölskyldur undir lok mánaðarins í Reykjanesbæ. Það eru minnst þrír á bak við hvern sem kemur til okkar svo ætla verður að 720 manns búi á heimilum þar sem ekki er til nóg fé fyrir nauðþurftum.

Til samanburðar koma um 150 fjölskyldur fyrstu vikuna í mánuðinum. Það sýnir okkur að fjölskyldur koma ekki fyrr en peningarnir eru búnir. Sárast finnst manni að gamalt fólk, ömmur okkar og afar, þurfi að standa í biðröð eftir mat.“

Átakanlegar reynslusögur

Anna Valdís segir neyðina leggjast á sálina.

„Fólk er að því komið að bugast. Ég fer oft grátandi heim til mín á kvöldin. Það tekur ofboðslega á að hitta fólkið. Það stefnir allt niður á við. Stjórnvöld brjóta allt niður. Þar er á ferð fólk sem er með áskrift að launum sínum og gerir sér enga grein fyrir því hvaða kjör almúginn býr við. Þegar fólk þarf að leita í notaðan skófatnað fyrir börnin sín er eitthvað mikið að í samfélaginu. Í gamla daga var engin skömm af því að ganga í notuðum fatnaði frekar nú. Öðru máli gegndi um skó. Foreldrar vildu ekki að börnin sín væri í notuðum skóm. Nú er árið 2011 og ungir foreldrar þurfa að fá notaða skó þegar börnin þeirra byrja í skóla. Það segir okkur að það er eitthvað mikið að í íslensku samfélagi.

Til okkar hefur komið kona sem hefur tvisvar spurst fyrir um hvort við ættum skó handa barni sínu sem á að byrja í skóla. Við höfum því miður ekki átt skó með númeri barnsins. Móðirin hefur því farið vonsvikin heim – og barnið,“ segir Anna Valdís og biðlar til allra að láta Fjölskylduhjálpinni í té vel farinn fatnað og skófatnað.

80 fermetrar eru leigðir á 80 þús.

M. Sævar Pétursson, fasteignasali hjá Eignamiðlun Suðurnesja, segir gefa auga leið að leiguverð sé töluvert lægra á Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu. Dæmigert sé að fermetrinn séu leigður á 1.000 krónur, upp að 130 til 140 fermetrum. Þá taki fermetraverðið að lækka.

Eins og rakið er á öðrum stað í Morgunblaðinu í dag á Íbúðalánasjóður nú 351 íbúð í Reykjanesbæ og standa þar af 249 auðar.

Sævar segir sjóðinn mundu geta haft jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn.

„Framboðið er ekki mikið. Það er nóg til af eignum en þær standa margar tómar. Hér er margt fólk sem gæti ábyggilega keypt sér húsnæði ef það ætti kost á kaupleigu. Það á ekki fyrir 20% af eiginfé eignar, en hefur greiðslugetu til að standa undir lánunum. Með kaupleigu myndi leigan safnast upp í slíka útborgun.“

Aðdáunarvert að fólkið skuli ekki bugast

En hvernig horfir ástandið við starfsfólki Rauða krossins? Stefanía Hákonardóttir, framkvæmdastjóri Suðurnesjadeildar Rauða krossins, svarar því til að eftirspurn eftir fataúthlutunum hafi aukist við hrunið en síðan haldist stöðug.

„Fólk er almennt nokkuð bjartsýnt. Það er hins vegar svartsýnt í atvinnumálum. Margir eiga í miklum erfiðleikum en standa sig vel. Mér finnst aðdáunarvert að fólk skuli ekki brotna niður í mótlætinu. Það er töggur í fólkinu. Það stendur sig vel í baráttunni og gefst ekki upp. Það er að bíða af sér kreppuna,“ segir Stefanía.

Á annað þúsund býr nú á Ásbrúarsvæðinu

Hjá skrifstofu Reykjanesbæjar fengust þær upplýsingar að 1.053 hafi nú lögheimili á Ásbrú, skólahverfinu þar sem varnarliðið var áður með bústaði sína.

Eins og rakið er til hliðar hér á síðunni eru íbúar Reykjanesbæjar nú ríflega 14.000 og hefur þeim tekið að fjölga á ný vegna aðsóknar í Ásbrúarsvæðið. Í ljósi þess hversu margir eru orðnir skráðir í nám á svæðinu má ætla að námsframboðið slái á atvinnuleysið á Suðurnesjum.

Leiga á mánuði er frá 40.000 krónum

Fram kemur á vefsíðu Keilis að mánaðarleiga á stúdíóíbúð í Víkingshverfinu á Ásbrú kosti rétt tæplega 40.000 krónur. Hússjóður er 1.700 kr. á mánuði og hiti og rafmagn 4.713 krónur. Íbúðirnar eru 41 fermetri að stærð.

Tveggja herbergja íbúðir í sama hverfi kosta 49.000 og 45.000 krónur á mánuði og bætist svo við sami hússjóður en ögn meira fyrir hita og rafmagn. Fjögurra herbergja íbúð í Hlíðarhverfinu kostar ríflega 90.000 krónur á mánuði en þær íbúðir eru 135 fermetrar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert