Dæmi eru um að tekjulágt fólk hafi flúið himinháa húsaleigu á höfuðborgarsvæðinu og sest að í Reykjanesbæ, þar sem leiga er 40% lægri.
Þetta segir Rúnar Már Sigurvinsson, rekstrarráðgjafi hjá félagsþjónustunni í Reykjanesbæ, og bendir á að 158 hafi sótt um félagsaðstoð hjá sveitarfélaginu í júlí, eða 31% fleiri en í sama mánuði í fyrra.
Útgjöld Reykjanesbæjar vegna félagsaðstoðar aukast stöðugt og eru nú komin í tæpa hálfa milljón kr. á dag, alls 180 milljónir kr. yfir árið.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag áætlar Anna Valdís Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ, að 720 manns þurfi á mataraðstoð að halda í sveitarfélaginu. „Fólk er að því komið að bugast,“ segir Anna Valdís.