„Alþjóðlegir bankar hafa sýnt því mikinn áhuga að lána til Íslands á nýjan leik og hinum nýju bönkum landsins virðast jafnvel hafa tekist að skapa einhvern áhuga,“ segir Guðmundur Oddsson, einn eigenda lögfræðistofunnar Logos, í samtali við breska lögfræðitímaritið The Lawyer sem birtist er á heimasíðu þess í gær.
Guðmundur bendir á að fyrst eftir bankahrunið haustið 2008 hafi alþjóðlegir lánveitendur ekki viljað koma nálægt Íslandi. Það hafi hins vegar breyst á undanförnum sex til tólf mánuðum.
Fjallað er í frétt tímaritsins um störf íslenskra lögfræðistofa fyrir erlenda banka og fjárfestingasjóði í tengslum við bankahrunið og um það hvernig unnið hafi verið úr ýmsum málum í kjölfar þess.
Haft er eftir Gunnari Þór Þórarinssyni, lögfræðingi hjá Logos, að íslenska efnahagslífið þurfi nauðsynlega á erlendri fjárfestingu að halda en að stjórnmálalandslagið á Íslandi hafi ekki boðið upp á það enn. Það ætti þó vonandi eftir að breytast. Áhugi sé fyrir því hjá erlendum fjárfestum að fjárfesta í orkugeira landsins en að það sé viðkvæmt mál pólitískt.