Ekki búið að ákveða um leikskólagjöld

Frá leikskóla. Myndin er úr myndasafni.
Frá leikskóla. Myndin er úr myndasafni. Morgunblaðið/ Ómar Óskarsson

Komi til verkfalls Félags leikskólakennara, sem boðað hefur verið frá og með 22. ágúst næstkomandi mun það hafa mismikil áhrif á starfsemi einstakra leikskóla. Ekki hefur verið ákveðið hvort innheimt verður fullt vistunargjald, komi til verkfalls.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaganna, segir að verkfallið nái ekki til leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra og almennra starfsmanna leikskóla. Það muni engin áhrif hafa á starfsemi einkarekinna leikskóla.

„Stjórnendurnir eru í öðru félagi, Félagi stjórnenda leikskóla, og þeir eru búnir að semja,“ segir Inga Rún.

Hún segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvernig staðið verði að innheimtu leikskólagjalda, komi til verkfalls. „Það er eitt af því sem við erum að skoða þessa stundina,“ segir Inga Rún.

Leikskólakennarar eru í minnihluta starfsmanna leikskólanna, en afar misjafnt er eftir sveitarfélögum hversu hátt hlutfall starfsmanna leikskóla er með leikskólakennaramenntun.

Samkvæmt skólaskýrslu sambands íslenskra sveitarfélaga 2010 var hlutfall leikskólakennara lægst í Reykjavík árið  2009, en þá voru þeir 32% af öllum starfsmönnum leikskóla borgarinnar. Hæst var hlutfallið á Vesturlandi, þar sem 43% stöðugilda á leikskólum voru mönnuð leikskólakennurum.




 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka