Umsókn Íslendinga að ESB er ráðgáta, segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í grein sem birtist í veftímaritinu EU Observer í dag. Hún segir ESB-aðild eina stefnumál Samfylkingarinnar.
„Í hugum margra er það vaxandi ráðgáta hvers vegna ríkisstjórn Íslands heldur áfram með umsóknarferli sitt að Evrópusambandinu,“ segir Vigdís í greininni.
Í greininni bendir Vigdís á að nýjustu kannanir sýni að 64,5% Íslendinga séu andsnúnir aðild landsins að Evrópusambandinu. „Íslendingar hafa verið á móti Evrópusambandsaðild í áratugi. En með hruninu sáu stuðningsmenn aðildar sér leik á borði að koma umsókninni í gegn,“ segir Vigdís.
Hún segir að eftir að sótt var um aðild hafi andstaða við ESB-aðild vaxið á Íslandi. Tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu opinberlega á móti aðild og innan raða Samfylkingarinnar séu vaxandi áhyggjur af umsókninni. „Vandamál þeirra (Samfylkingarinnar) er, að Evrópusambandsaðild er eina stefnumálið sem flokkurinn hefur að bjóða.“
„Umsókn Íslendinga um Evrópusambandsaðild er, og hefur verið frá byrjun, sóun á fjármunum ESB og Íslands,“ segir Vigdís.
Grein Vigdísar Hauksdóttur á EU Observer