Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur bókuðu á fundi í menntaráði í dag að þeir vonuðust eftir að samningar tækjust. Kæmi til verkfalls væri rétt að leitast við að halda sem flestum leikskóladeildum opnum og draga þannig úr raski og skerðingu á þjónustu.
Fundurinn í menntaráði var haldinn að ósk fulltrúa Sjálfstæðisflokks og VG.
Bókun Sjálfstæðisflokksins var eftirfarandi: „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vona að samkomulag náist á næstu dögum milli Reykjavíkurborgar og leikskólakennara svo koma megi í veg fyrir verkfall.
Komi engu að síður til verkfalls er rétt að leitast verði við að halda sem flestum leikskóladeildum opnum og draga þannig úr því raski og þjónustuskerðingu, sem verkfall mun óhjákvæmilega hafa í för með sér fyrir leikskólabörn og fjölskyldur þeirra.“