Náttúrufyrirbæri á heimsvísu

Hraunstráin eru feykiviðkvæm og menn finna ekki fyrir því ef …
Hraunstráin eru feykiviðkvæm og menn finna ekki fyrir því ef þeir rekast í þau og brjóta. ljósmynd/Árni B. Stefánsson

Þegar Kalmanshellir verður friðlýstur á föstudag mun Árni B. Stefánsson, augnlæknir og hellamaður, frumsýna ljósmyndir sem hann tók í eina skiptið sem hann hefur farið um viðkvæmasta hluta hellisins. Hann fagnar friðlýsingunni en gagnrýnir jafnframt að Íslendingar hafi látið hraunhella sína drabbast niður.

Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun í dag kemur fram að umferð um viðkvæma hluta hellisins, sem þegar hefur verið lokað, er alfarið óheimil nema brýnir almannahagsmunir séu í húfi.

Eitt lengsta hraunstrá jarðar, 165 sentimetrar


Hellirinn var kannaður og mældur upp sumarið 1993 undir forystu Bandaríkjamannsins Jays Reich. Hellirinn er rúmir fjórir kílómetrar að lengd og þar með lengsti mældi hraunhellir landsins. Tilefni friðlýsingarinnar er að ein hellisgreinin, um 500 m löng, skartar óvenju glæsilegum og ósnortnum hraunmyndunum, bæði dropstráum sem dropsteinum og telst vera náttúrufyrirbæri á heimsvísu. Þar er m.a. eitt lengsta þekkta hraunstrá jarðar, 165 cm að lengd, að því er segir í tilkynningu.

Árni B. Stefánsson er einn fárra sem þangað hefur komið, þ.e. í viðkvæmasta hlutann. Þangað fór hann einu sinni við annan mann til að ljósmynda hellinn. „Það er ekkert sem réttlætir umferð um svona hella nema skjalfesting eða mæling og það er ekkert sem réttlætir umferð aftur fyrr en það eru komnar góðar þrívíddarmyndavélar,“ segir hann.

Friðlýsingarathöfnin fer fram í félagsheimilinu Brúarási í Borgarbyggð kl. 15 og þar mun Árni frumsýna myndir úr hellinum en hann tók um 100 ljósmyndir í ferðinni.

Hellinum lokað af gefnu tilefni

Aðeins örfáir hellamenn farið um hellinn. Engu að síður leiddi samanburður á myndum frá 2005 það í ljós að fáein dropstrá höfðu brotnað í mynni viðkvæma hlutans. Var þá hafist handa að gangast í lokun viðkvæma hlutans og friðlýsingu hellisins alls.

Árni segir að dropstráin séu geysilega viðkvæm. Mörg þeirra séu hol að innan. Stráin séu 7-9 mm í þvermál en þykktin á veggjunum, þ.e. fyrir utan holrúmið, er um 1 mm. Menn finni því ekki fyrir því þótt þeir rekist í strá og brjóti. Hann segir að friðlýsing hellisins og lokun viðkvæmasta hluta hans sé bráðnauðsynleg.

Árni bendir á að þegar hellirinn var kortlagður hafi einungis þeir 3-4 sem kortlögðu hellinn farið þangað niður en hinir í leiðangrinum, þ. á m. leiðangursstjórinn Jay Reich, neitað sér um að fara þangað niður. Þar með hafi afar mikilvægt fordæmi verið sett.

Sinnuleysi og slæm umgengni

Árni segir að Íslendingar hafi gengið afar illa um hraunhella landsins.

Til samanburðar bendir hann á að á hellasvæðinu Chillagoe í Norðaustur-Ástralíu sé fjöldi kalkhella lokaður fyrir umferð. Þrír kalkhellar séu til sýnis fyrir almenning og séu þeir mjög skoðunarverðir. En síðan eru 2.500 aðrir hellar sem almenningi er óheimilt að fara í. Þeir eru flokkaðir í A-, B-, C- og D-flokka. Í A-hella megi félagar í hellaskoðunarfélögum fara en í D-hella megi enginn fara. 

Hér á landi hafi verið birtar upplýsingar um staðsetningu flestra íslenskra hraunhella. Allir vilji fara í D-hella, þ.e. hella sem ættu með réttu að vera lokaðir. „Það hefur engin þjóð umgengist jafnmargrar fagrar og merkilegar náttúruminjar af jafnmiklu sinnisleysi og látið þær drabbast jafnmikið niður eins og við Íslendingar höfum látið hraunhellana drabbast mikið niður,“ segir hann. 

Það sé ný nálgun í náttúruvernd að banna algjörlega umferð um hella, líkt og gert verður á föstudag. Árni segir að fleiri hellum þurfi að loka og stýra nákvæmlega umferð um.

Fólk verður líka að geta notið hellanna

Árni stóð fyrir stuttu fyrir því að opna Vatnshellinn á Snæfellsnesi fyrir almenningi. Í þetta verkefni varði hann 600 vinnutímum, 39 ferðum vestur á nes eða um 16.000 kílómetrum. Til að fólk sætti sig við lokun hella verði að gefa því kost á að skoða aðra, s.s. Vatnshellinn. Einnig vinnur hann nú að því að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan almenningi.

Örfáir hafa farið um viðkvæmasta hlutann og Árni telur ekki …
Örfáir hafa farið um viðkvæmasta hlutann og Árni telur ekki ástæður til að þangað verði farið aftur nema með fullkomna þrívíddarmyndavél. ljósmynd/Árni B. Stefánsson
Úr Kalmanshelli.
Úr Kalmanshelli. ljósmynd/Árni B. Stefánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert