Bifhjólasamtökin Sniglar hafa nú safnað ríflega 1.300 undirskriftum til að mótmæla ákvæðum í drögum að nýjum umferðarlögum. Drögin eru nú í lokameðferð hjá samgöngunefnd Alþingis og á vef Sniglanna segir að undirskriftasöfnunin sé síðasta hálmstráið til að hafa áhrif á þessa óréttlátu lagasetningu.
Á vef Sniglanna segir að verði drögin að ákvæðum í lögum, verði réttindi mótorhjólafólks skert á ýmsan máta.
„Við eigum að þola þriggja ára hækkun á prófaldri sem alltaf hefur fylgt bílprófsaldri, sem hækkar aðeins um eitt ár. Við munum ekki fá að reiða börnin okkar lengur, þótt þau mættu sitja á í öðrum löndum, vegna fáránlegrar reglu um 150 sentimetra lágmarkshæð. Samkvæmt lögunum mega allir með bílpróf keyra skellinöðru og ef þeir eru eldri en tvítugir að reiða á þeim farþega. Eins og allt hjólafólk veit krefst slíkt þjálfunar og út í hött að veita fólki slík réttindi sem hefur enga þjálfun til þess, segir þar. Síðast en ekki síst sé lagt til að lögfest verði að bifhjólafólk klæðist hlífðarfatnaði, en engir staðlar eru til í heiminum um hvað telst hlífðarfatnaður á bifhjóli. Þess vegna sé ekki hægt að fylgja slíkum lögum eftir og markleysa að setja slíkt í lög.
Sniglar hafi gert margar tilraunir til að fá nefndina til að hætta við að lögleiða ofangreind ákvæði en ekkert gengið. Um fordóma gagnvart bifhjólafólki sé að ræða og því þurfi að svara. Næsta skref verði að gera kröfu um að bifhjólafólk verði í gulum vestum, eins og sé til dæmis til skoðunar í Frakklandi.