Vakin er athygli á frágangi bifreiðar sem breytt hefur verið til þess að nýta metangas sem eldsneyti í pistli á heimasíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) í dag og spurt að því hvort um eðlilegan frágang sé að ræða. Félagsmaður í félaginu sendi myndir inn af bifreiðinni sem sjá má með þessari frétt.
Eins og sjá má hefur tveimur stórum gaskútum verið komið fyrir undir bílnum að aftan. Kútarnir eru mjög síðir og þar af leiðandi hætta á því að þeir geti orðið fyrir höggi. Þá bæði ef ekið yrði aftan á bílinn eða þeir tækju niðri á vondum vegi eins og segir á heimasíðu FÍB. Bílnum mun hafa verið breytt hér á landi.
„Þegar betur er að gætt kemur svo í ljós til viðbótar að úttak gaskútanna eru alls óvarin fyrir grjótkasti og öðrum ákomum. Spurningin er því sú hvort þessi frágangur hafi fengið viðurkenningu. Getur verið að þetta teljist vera í lagi og öruggt og pottþétt? Bíllinn er allavega í umferð þannig að svo hlýtur að vera,“ segir í pistlinum.
Samkvæmt heimildum mbl.is er málið nú komið inn á borð hjá Umferðarstofu.