Önnur umræða um þriggja ára fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fór fram í borgarstjórn í gær. Hún var samþykkt með níu atkvæðum og í kjölfarið gagnrýndu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna meirihlutann harðlega.
Í sameiginlegri bókun borgarfulltrúanna er það harðlega gagnrýnt að þurft hafi áminningu af hálfu ríkisvaldsins til að borgin lyki þessu lögbundna verkefni, sem nú er lagt fram hálfu ári síðar en lög gera ráð fyrir. „Afsakanir meirihlutans halda ekki, enda eina ástæða þessara vanskila sú að meirihlutinn hefur hvorki getu né skilning á mikilvægi þess að slíkir grunnþættir í rekstri borgarinnar séu í lagi.“
Borgarfulltrúar minnihlutans segja kröfuna um vönduð og gegnsæ vinnubrögð ekki uppfyllta. Þriggja ára áætlunin hafi ekkert gildi enda komi engar upplýsingar fram um stefnu eða fyrirætlanir meirihlutans á næstu þremur árum. „Vel rekin borg hefur skýra stefnu. Skýra forgangsröðun fjármuna og markmið til lengri og skemmri tíma í öllum málaflokkum. Í Reykjavík hefur ekki verið sett fram nein stefna, heldur eru borgarbúar kynntir fyrir nýjum geðþóttaákvörðunum með reglulegu millibili, þvert á það sem lofað hefur verið og þvert á það sem borgarbúar eiga skilið.“