Segir efnahagsstefnuna í molum

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins.

„Það þarf breytta forgangsröðun og það strax. Sigmundur Davíð talar af mikilli skynsemi um þetta mál. Skynsamlegast við núverandi aðstæður væri að leggja ESB umsóknina til hliðar og einbeita sér að þeim verkefnum sem mestu máli skipta,“ segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag. 

Þar vísar hann til greinar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ritaði í Morgunblaðið í dag þar sem hann kallaði eftir því að umsóknin um aðild að ESB yrði sett á ís á meðan í ljós kæmi hvernig sambandið ynni úr efnahagserfiðleikum sínum.

Ásmundur gekk fyrr á þessu ári til liðs við Framsóknarflokkinn en hafði áður verið þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Á öðrum stað á Facebook-síðu sinni gagnrýnir hann harðlega vaxtahækkun Seðlabanka Íslands frá í gær og segir hana enn eitt kjaftshöggið fyrir heimili og fyrirtæki í landinu. Þá fer hann hörðum orðum um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

„Efnahagsstjórnin er í molum og svo virðist vera sem markvisst sé unnið að því dýpka kreppuna. Hvar er þenslan sem Seðlabankinn og ríkisstjórnin eru að slá á?“ spyr Ásmundur.

Facebook-síða Ásmundar Einars Daðasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert