Spenna milli ráðherra

Jón Bjarnason, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir
Jón Bjarnason, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Kristinn

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur um hríð krafist þess að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra svari spurningum ESB um Greiðslustofnun landbúnaðar og landupplýsingakerfi, sem grundvallar styrkjakerfi Evrópusambandsins í landbúnaði.

Jón vill hins vegar bíða eftir væntanlegri rýniskýrslu ESB um málaflokkinn og bíða með að svara spurningum þar til sú skýrsla hefur litið dagsins ljós. Þetta hefur leitt til vaxandi spennu í samskiptum ráðherranna, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Jafnvel svo mikillar að Jóni hafi verið tjáð að hann gæti misst ráðuneyti sitt vegna málsins.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, neitar aðspurður að tjá sig um hvort Jóni hafi verið hótað embættismissi, þar sem það myndi ljá spurningunni lögmæti, eins og Steingrímur orðar það. „Það er ekki svo að um málsmeðferðina sé djúpstæður ágreiningur þó að hitt sé ljóst að menn hafi mjög ólíkar skoðanir á því hvort rétt sé að ganga í Evrópusambandið,“ segir Steingrímur.

„Það er ákveðin spenna í þessu, án þess að vera hlaupið í neinn óleysanlegan hnút,“ segir viðmælandi úr þingliði ríkisstjórnarinnar í Morgunblaðinu í dag. Hann kveðst skilja ágreininginn svo að nú styttist í uppgjör um hvort umsóknarferlið að ESB sé samningaferli eða aðlögunarferli, sem þyki skipta miklu máli í umræðunni um umsóknina. „Þetta hefur maður heyrt að valdi mjög djúpum núningi þeirra á milli,“ segir annar alþingismaður af vinstri vængnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert