Björgunaraðgerðirnar sem standa nú yfir í Kverkfjöllum hafa reynst nokkuð umfangsmiklar. Þyrla Norðurflugs sem send var eftir slösuðum ferðamanni kom á staðinn fyrir um klukkustund en vegna aðstæðna reyndist hún aðeins geta lent í 5-600 metra fjarlægð. Því þarf að bera manninn um erfitt fjallendi í þyrluna.
Nú á sjöunda tímanum er unnið að því að selflytja tvo hópa björgunarsveitarmanna frá Sigurðarskála í Kverkfjöllum á slysstaðinn. Þeir munu búa um manninn á börum og bera hann í þyrluna. "Þó að þetta sé ekki langt er þetta upp fjallendi og þar á meðal mjög bratt einstigi," segir Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg.
Hinn slasaði er svissneskur ferðamaður sem var ásamt félögum sínum að skoða íshella þegar ís féll á fætur hans. "Ef rétt er að hann sé fótbrotinn á báðum fótum verður að gera þetta eins rólega og hægt er til að valda honum ekki þjáningum," segir Jónas. Læknir er með í för og hefur maðurinn fengið verkjalyf til að létta honum biðina eftir björgun.
Jónas telur að það geti tekið um tvær til þrjár klukkustundir að koma manninum í þyrluna, með hjálp tveggja burðarhópa. Um 6 manns eru í hverjum hóp og því þarf að flytja um 10-15 manns á staðinn til að bera manninn í þyrluna. "Svo þurfa björgunarsveitarmennirnir að ganga til baka þegar þetta er búið, sem tekur þrjá, fjóra tíma, og svo er það akstur heim. Þannig að síðustu björgunarsveitarmennirnir koma heim einhvern tíma um miðja nótt."
Ekki liggur fyrir hvort hinn slasaði verður fluttur á sjúkrahús á Akureyri eða í Reykjavík. Jónas segir að það fari eftir drægi þyrlunnar, sem almennt er ekki ætluð til björgunaraðgerða. Báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar eru óstarfhæfar sem stendur.