„Þegar málin hafa skýrst og við vitum hvort eða hvernig ESB lifir af er rétt að þjóðin taki afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort taka skuli viðræður upp að nýju,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag.
Hann segir ennfremur að þeir „sem halda því fram að efnahagskrísan muni styrkja ESB og evruna telja sig væntanlega ekki þurfa að óttast þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Í dag birtist í Morgunblaðinu grein eftir Sigmund Davíð þar sem hann kallar eftir því að umsóknin um aðild að ESB verði lögð til hliðar á meðan ekki er ljóst hver útkoman verði úr yfirstandandi efnahagserfiðleikum evrusvæðisins.
„Einhverjir kunna að velta því fyrir sér hvort ekki sé best að afgreiða málið, ljúka viðræðunum og fella samning til að losna við umræðuna. Gallinn er að ekki verður kosið um samning á næstunni. Viðræður verða ekki kláraðar fyrr en þeir sem stýra ferlinu telja sig hafa náð meirihluta fyrir jái. Þangað til verður samfélagið undirlagt af Evrópuvegferðinni og síharðnandi deilum,“ segir Sigmundur í greininni.
Hann segir núverandi ástand óviðunandi og „hvað þá nokkur ár í viðbót af stöðnun og innbyrðis átökum. Leggjum ESB-umsóknina til hliðar og snúum okkur að mikilvægari verkefnum. Það hentar öllum.“