Áfallið er mest fyrir foreldrana

Seltjarnarnes.
Seltjarnarnes. www.mats.is

„Barnið er eins vel haldið og hægt er að hugsa sér. Þetta reyndist eiga sér eðlilega skýringu, það var í raun röð atvika sem gerði það að verkum að þetta gerðist,“ segir Sigrún Hv. Magnúsdóttir, yfirfélagsráðgjafi Félagsmálaráðs Seltjarnarness, sem fer með barnaverndarmál í bænum.

Barnaverndaryfirvöld ræddu í gær við foreldra barns sem fannst snemma í gærmorgun á gangstétt í Reykjavík. Leigubílstjóri tilkynnti lögreglu um kl. 5.40 að hann hefði fundið ungbarn yfirgefið í bílstól. Stuttu síðar, þegar lögregla var komin á staðinn, barst tilkynning frá foreldrum sem höfðu týnt sex mánaða gömlu barni sínu.

Reyndist um sama mál að ræða og komu foreldrarnir strax á vettvang. Þau vinna við dreifingu blaða, og höfðu verið að hlaða bíl sinn af blöðum í morgunsárið þegar þau gleymdu barninu. Barnið var með pela og klætt í hlýjan galla. Það var sofandi þegar leigubílstjórinn kom að því. Að sögn Sigrúnar varð barninu ekki meint af.

Ekkert bendi til vanrækslu heldur hafi aðeins verið um stakt atvik að ræða vegna sérstakra aðstæðna. „Það er bara hræðilegt að þetta skyldi hafa komið fyrir og ef einhverjir eru í áfalli þá eru það foreldrarnir,“ segir Sigrún. Ekki þykir tilefni til frekari eftirmála.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka