Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segist ekki óttast að átök verði um framkvæmd hugsanlegs verkfalls í leikskólum sem hefst á mánudag takist samningar ekki fyrir þann tíma.
Samband íslenskra sveitarfélaga sendi fyrr í þessum mánuði frá sér yfirlýsingu um starfsemi leikskóla í hugsanlegu verkfalli, en leikskólakennarar voru mjög ósáttir við hana. Í kjölfarið settust deiluaðilar á fund um málið þar sem náðist samkomulag.
Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga beindi þeim tilmælum til sveitarfélaganna að þau skipuleggi starfsemi leikskóla þannig að forðast megi átök við verkfallsverði Félags leikskólakennara. Jafnframt lýsti sambandið því yfir að þar sem enn sé ágreiningur um framkvæmd verkfallsins muni samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga, ef til verkfalls kemur, vísa málinu til úrskurðar félagsdóms.
Haraldur segist ekki hafa fengið neina tilkynningu um að slíkt mál sé komið til félagsdóms.
Haraldur segir að reglan sem miðað er við sé sú að deildir verði lokaðar þar sem deildarstjórinn er í Félagi leikskólakennara. Hann segir að foreldrar eigi að vera komnir með í hendur upplýsingar um hvernig starfsemi einstakra deilda verði háttað ef til verkfalls kemur. Hann segir að félagið verði með verkfallsvörslu í verkfalli.
Fundur hefur verið boðaður í kjaradeilunni á morgun og hefst fundurinn kl. 11.